Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 659/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 659/2021

Fimmtudaginn 17. mars 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 8. desember 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. október 2021, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði greiðslur atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun fyrir tímabilið 27. mars til 11. júní 2020 samhliða hlutastarfi hjá B. Þann 29. júní 2020 var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur og því bæri honum að endurgreiða Vinnumálastofnun 81.073 kr. Með innheimtubréfi, dags. 21. október 2021, var þess farið á leit við kæranda að hann greiddi skuld sína vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. desember 2021. Með bréfi, dags. 10. desember 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 15. febrúar 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. febrúar 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hafa þann 7. desember 2021 fengið kröfu í heimabanka sinn að fjárhæð 93.400 kr. með eindaga daginn eftir vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Kæranda þyki það óásættanleg vinnubrögð, hann hafi verið í miðjum lokaprófum og jólin rétt ókomin. Kærandi hafi einungis fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir einn mánuð þann 28. maí 2020. Starfssamningur hans hjá B hafi runnið út í byrjun maí 2020 og þar sem hann hafi ekki ætlað að halda áfram það sumar hafi hann verið tekjulaus í einn mánuð. Umsóknarferlið hjá Vinnumálastofnun hafi aftur á móti verið langt og brotið hafi verið á honum þar. Kærandi hafi fengið símtal um að umsókn hans hefði óvart verið eytt í kerfinu og hann hafi verið beðinn um að bíða í þrjá til fjóra daga eftir að Vinnumálastofnun myndi hringja og tjá honum um gang mála. Vinnumálastofnun hafi aldrei hringt. Eftir það hafi kærandi hringt til að athuga stöðu umsóknarinnar en þá fengið þau svör að hann ætti enga umsókn. Viðkomandi starfsmaður hafi verið dónalegur og sagt að kærandi hefði aldrei sótt um bætur. Það eina sem hafi sést í kerfinu hafi verið umsókn um hlutabótaleið sem kærandi hafi þegar tilkynnt að hann væri hættur við því að sá atvinnurekandi hafi beðið kæranda um að draga umsóknina til baka og sagt honum upp vegna rekstrarvanda í Covid-19. Ekki hafi verið hægt að draga umsókn til baka vegna galla í kerfinu og Vinnumálastofnun hafi ekki heldur getað eytt umsókninni. Eftir þessa umsókn hafi kærandi sótt um fullar atvinnuleysisbætur því að hann hafi séð fram á yfirvofandi tekjuleysi. Sú umsókn hafi eyðst og honum hafi verið sagt að það sama hefði gerst hjá 30 öðrum en þegar hann hafi hringt hafi allt í einu ekki neinn kannast við það. Kærandi hafi síðan fengið greiddar fullar atvinnuleysisbætur fyrir einn mánuð, mun seinna en hann hefði átt að fá vegna þessara mistaka Vinnumálastofnunar. Um leið og kærandi hafi fengið aðra sumarvinnu hafi hann tilkynnt það til Vinnumálastofnunar og því hafi hann aðeins fengið eina skerta greiðslu til viðbótar frá stofnuninni. Nú sé hann rukkaður um 93.234 kr. sem sé rúmlega helmingur greiðslnanna sem hann hafi fengið og átt rétt á. Ekki hafi verið gefinn viðeigandi tími til að bregðast við. Kærandi efist um að farið sé rétt með mál hans, bæði hvað varði samskipti við Vinnumálastofnun á árinu 2020 og með þessari kröfu. Kærandi fari fram á að krafan verði felld niður, eða í hið minnsta endurskoðuð og endurreiknuð. Hann vilji sjá frekari sannanir á því að krafan eigi rétt á sér.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi þann 27. mars 2020 sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Þann 30. mars 2020 hafi kærandi haft samband við Vinnumálastofnun og tjáð starfsmanni stofnunarinnar að hann hefði fyrir mistök sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga samhliða minnkuðu starfshlutfalli, eða svokallaða hlutabótaleið. Ætlunin hafi verið að sækja um almennar atvinnuleysistryggingar. Starfsmaður stofnunarinnar hafi ráðlagt kæranda að sækja um að nýju. Kærandi hafi sótt um að nýju þann 6. maí 2020. Í ljósi þeirra mistaka sem hafi átt sér stað í umsóknarferli kæranda frá 27. mars 2020 hafi verið tekin sú ákvörðun að færa upphafsdag umsóknar kæranda aftur til 27. mars 2020 til að greiðslur myndu miðast við þann dag. Það hafi verið gert til að koma til móts við kæranda. Með erindi, dags. 20. maí 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri ákveðinn 59%. Meðal fyrirliggjandi gagna í máli kæranda sé staðfesting á starfstímabili frá fyrrum vinnuveitanda kæranda, B. Þar komi fram að kærandi hafi starfað í 36,25% starfshlutfalli frá og með 1. febrúar 2020. Kærandi hafi því verið skráður í 36% hlutastarf í kerfum stofnunarinnar.

Þann 19. júní 2020 hafi Vinnumálastofnun borist tilkynning þess efnis að kærandi hefði afskráð sig af atvinnuleysisbótum í gegnum „Mínar síður“ þar sem hann hefði hafið störf hjá C þann 11. júní 2020. Þann 29. júní 2020 hafi kæranda verið tilkynnt að við útreikning atvinnuleysisbóta hefði komið í ljós að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 84.561 kr. Í október 2021 hafi skuld kæranda enn verið ógreidd hjá stofnuninni. Með innheimtubréfi, dags. 21. október 2021, hafi þess verið farið á leit við kæranda að hann greiddi skuld sína vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Athygli kæranda hafi jafnframt verið vakin á því að honum hefði áður verið tilkynnt um ofgreiðslu atvinnuleysisbóta með útgáfu greiðsluseðla og með tilkynningu á „Mínum síðum“. Kæranda hafi verið tjáð að upphæð skuldarinnar næmi 81.073 kr., auk álags að fjárhæð 12.161 kr. Heildarskuld kæranda við Vinnumálastofnun væri því 93.234 kr.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi starfað í 36% starfshlutfalli hjá B og þegið á móti atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á tímabilinu 27. mars 2020 til 11. júní 2020. Í 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um atvinnuleysistryggingar samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Í 1. mgr. 17. gr. segi orðrétt:

,,Launamaður, sbr. a-lið 3. gr., sem missir starf sitt að hluta telst hlutfallslega tryggður samkvæmt lögum þessum og nemur tryggingarhlutfallið mismun réttar hans hefði hann misst starf sitt að öllu leyti, sbr. 15. gr., og þess starfshlutfalls sem hann gegnir áfram, frá þeim tíma er hann missti starf sitt að hluta nema annað leiði af lögum þessum. Hið sama gildir þegar launamaður missir starf sitt en ræður sig til starfa í minna starfshlutfall hjá öðrum vinnuveitanda.“

Þegar atvinnuleitandi tilgreini að hann sé í hlutastarfi skrái Vinnumálastofnun hlutfall starfsins í kerfi stofnunarinnar. Kærandi hafi því verið skráður í 36% hlutastarf í kerfum stofnunarinnar. Jafnframt sé þess óskað að viðkomandi atvinnuleitandi skrái inn tekjuáætlun vegna hlutastarfsins. Skráð hafi verið inn tekjuáætlun vegna hlutastarfs kæranda og hafi verið áætlað að tekjur af hlutastarfinu væru 180.000 kr. á mánuði.

Í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um skerðingu atvinnuleysisbóta vegna tekna en 1. mgr. ákvæðisins sé svohljóðandi:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. gr. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32-34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Í samræmi við framangreint ákvæði og 17. gr. laganna séu atvinnuleysistryggingar einstaklinga í hlutastörfum skertar með þeim hætti að fyrst sé starfshlutfall viðkomandi dregið frá bótarétti hans. Atvinnuleitandi með 100% bótarétt í 40% hlutastarfi fái því aðeins greiddar 60% af þeim bótum sem hann eigi rétt til, sbr. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í tilviki kæranda hafi það leitt til þess að hann hafi átt rétt til 23% atvinnuleysisbóta, enda hafi útreiknaður bótaréttur hans verið 59% og hann áfram gegnt 36% hlutastarfi. Skerðing vegna tekna hlutastarfs sé svo framkvæmd með þeim hætti að óskertur réttur atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta, að viðbættu frítekjumarki, sé dreginn frá samanlögðum tekjum hans og þeim atvinnuleysisbótum sem hann eigi rétt á. Helmingur þeirrar upphæðar sem nái umfram fullar atvinnuleysisbætur, ásamt frítekjumarki, myndi skerðingu atvinnuleitanda. Framangreind aðferðafræði hafi leitt til þess að skuld hafi myndast við Vinnumálastofnun vegna aprílmánaðar 2020, að fjárhæð 84.561 kr.

Ofgreiddar atvinnuleysisbætur séu innheimtar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar segi orðrétt:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps þess sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé því fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Í því samhengi vísi Vinnumálastofnun til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 249/2021. Jafnframt bendi Vinnumálastofnun á úrskurð nefndarinnar í máli nr. 86/2013 um að það sé á ábyrgð þess er fái greiddar atvinnuleysisbætur að tryggja að Vinnumálastofnun berist nauðsynlegar upplýsingar er geti haft áhrif á rétt hans til greiðslu atvinnuleysisbóta.

Upphafleg skuld kæranda við Vinnumálastofnun hafi verið 84.561 kr., auk álags. Með heimild í 3. mgr. 39. gr. hafi 3.488 kr. verið skuldajafnaðar við síðar tilkomnar atvinnuleysisbætur kæranda. Þá hafi verið tekin sú ákvörðun í kjölfar kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála að fella niður álag á skuld kæranda, sbr. niðurlag ákvæðis 2. mgr. 39. gr. laganna, þar sem óljóst sé hvort skuldamyndunina megi rekja til mistaka kæranda eða mistaka Vinnumálastofnunar við skráningu tekna í kerfi stofnunarinnar. Því standi skuld kæranda við Vinnumálastofnun nú í 81.703 kr. Kæranda beri að greiða Vinnumálastofnun þá fjárhæð, sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.

Í kæru hafi kærandi jafnframt gert athugasemdir við vinnubrögð Vinnumálastofnunar við afgreiðslu á umsókn hans. Vinnumálastofnun taki undir með kæranda að misbrestur hafi orðið á afgreiðslu umsóknar hans sem stofnunin biðjist velvirðingar á. Stofnunin ítreki þó að komið hafi verið til móts við kæranda, mistök leiðrétt og álag verið fellt niður.

Með vísan til framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kæranda beri að greiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. október 2021, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir aprílmánuð 2020, að fjárhæð 81.073 kr., vegna tekna sem kærandi aflaði á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur.

Í 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna hins tryggða. Þar segir í 1. mgr.:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Kærandi fékk tekjur frá B samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun. Ljóst er að tekjurnar höfðu áhrif á fjárhæð atvinnuleysisbóta til handa kæranda, sbr. framangreint ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um frádrátt vegna tekna.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna er heimilt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Þar sem kærandi var með hærri tekjur í aprílmánuði 2020 en tekjuáætlun gerði ráð fyrir fékk kærandi greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á þann mánuð. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Í máli þessu hefur Vinnumálastofnun ákveðið að fella niður álagið sem lagt var á skuld kæranda og er því ekki ágreiningur um það atriði. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. október 2021, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum